Íslandshótel hf. og Íþróttasamband fatlaðra í samstarf
Íslandshótel hf. og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) hafa gert með sér samning um samstarf og stuðning hótelanna við starfsemi ÍF.
Íslandshótel hf. og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) hafa gert með sér samning um samstarf og stuðning hótelanna við starfsemi ÍF. Þannig bætist Íslandshótel hf. nú í hóp þekktra fyrirtækja sem stutt hafa dyggilega við íþróttir fatlaðra hér á landi og renna styrkari stoðum um starfsemi sambandsins.
Þórður Árni Hjaltested, formaður Íþróttasambands fatlaðra, sem undirritaði samninginn fyrir hönd ÍF, sagði það mikið gleðiefni að sambandið gæti notið alls þess sem Íslandshótel hf. hafa upp á að bjóða varðandi fundi og ráðstefnur sem og aðra viðburði sem ÍF stendur fyrir.
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela hf. sagði eftir undirritun samningsins að starfsemi Íþróttasambands fatlaðra og árangur fatlaðra íþróttamanna á undanförnum árum væri mikil hvatning öllum landsmönnum og sýndi svo ekki væri um villst, hverju elja og ástundun gæti árorkað. Íslandshótelum hf. væri því mikill heiður að vera í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra.
Íslandshótel eiga og reka 17 hótel út um allt land auk funda- og ráðstefnuaðstöðu. Þetta eru Grand Hótel Reykjavík sem er stærsta ráðstefnuhótel landsins, Hótel Reykjavík Centrum og 15 Fosshótel hringinn í kringum landið.