Íslandshótel fá aðild að Glasgow-yfirlýsingunni
Heimssamtök ferðamálaþjónustu Sameinuðu þjóðanna hafa formlega samþykkt aðild Íslandshótela að Glasgow-yfirlýsingunni um loftslagsaðgerðir í ferðaþjónustu.
Íslandshótel er þannig fyrsta íslenska ferðaþjónustufyrirtækið og fyrsta hótelkeðjan á Íslandi sem tekur þar þátt, en fyrir var Íslenski ferðaklasinn. Þessi merki áfangi undirstrikar enn frekar skuldbindingu Íslandshótela um sjálfbærni og ábyrga ferðaþjónustu.
Glasgowyfirlýsingunni var formlega hleypt af stokkunum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í samnefndri borg í Skotlandi árið 2021. Með aðild að yfirlýsingunni skuldbindi þátttakendur sig til að minnka kolefnislosun sína um helming fyrir 2030 og ná núllpunkti fyrir árið 2050.
„Með aðild að Glasgow-yfirlýsingunni getum við enn frekar innleitt árangursríka verkferla á sviði sjálfbærni og umhverfisverndar. Ferðamenn í dag eru mjög meðvitaðir um umhverfismál og með þessu skrefi sýnum við svart á hvítu að Íslandshótel eru ekki aðeins leiðandi á þessu sviði, heldur munu halda áfram að taka stór skref í þessari vegferð. Umhverfismál eru okkar hjartans mál og við fögnum þessum áfanga sem félagið hefur nú náð,“ er haft eftir Davíð Torfa Ólafssyni, forstjóra Íslandshótela.