Í átt að sjálfbærni á degi ábyrgrar ferðaþjónustu
Þann 19. janúar 2022, skrifaði Íslandshótel hf. undir samninga við Vottunarstofuna Tún ehf. um vottun Green Key (Græna lykilsins) á öllum hótelum keðjunnar og við Klappir Grænar Lausnir hf. um að halda utan um sjálfbærnimælikvarða samstæðu Íslandshótela.
Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Vottunarstofunar Túns um vottun Green Key sagði: „Ábyrg ferðaþjónusta er ekki bara slagorð fyrir markaðssetningu heldur er hún er forsenda þess að greinin eigi sér framtíð. Með undirritun samningsins um þátttöku í Græna lyklinum hafa Íslandshótel skuldbundið sig til uppfylla strangar kröfur og fá staðfestingu á framlagi sínu til ábyrgrar ferðaþjónustu. Samningurinn er einnig mikilvægt skref í sögu Græna lykilsins á Íslandi sem hófst árið 2015, en með honum munu ferðalangar í fyrsta sinn eiga kost á því að dvelja á hótelum með sjálfbærnivottun Græna lykilsins um allt land.“
“Það er mikið ánægjuefni fyrir Klappir að fá Íslandshótel inn í ört stækkandi hóp viðskiptavina Klappa. Það sýnir í verki að Íslandshótel taka samfélagslega ábyrgð alvarlega og eru að gera allt í þeirra valdi til að styðja við metnaðarfulla umhverfisstefnu sem fyrirtækið hefur sett sér,“ sagði Anton Birkir Sigfússon, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Klappa.
Íslandshótel eiga og reka 18 hótel út um allt land auk funda- og ráðstefnuaðstöðu. Þetta eru Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum, Hótel Reykjavik Saga og 15 Fosshótel hringinn í kringum landið.
Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs Íslandshótela, sagði eftir undirritun samninga að “það sé sönn ánægja að skrifa undir samninga við Tún og Klappir á degi ábyrgrar ferðaþjónustu þar sem ábyrg ferðaþjónusta er undirstaða í stefnu Íslandshótela. Við viljum vera leiðandi í að skapa sjálfbæra ferðaþjónustu á Íslandi og stuðla þannig að aukinni velferð samfélags, starfsmanna, viðskiptavina og umhverfis í gegnum daglegan rekstur. Það er ábyrgð okkar sem leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi”. Stefán Karl Snorrason, starfsþróunar- og gæðastjóri, tók undir þau orð og bætti við að “það sé klár stefna Íslandshótela að vera fyrirmyndarfyrirtæki á Íslandi í samfélagslegri ábyrgð og loftlagsmálum. Við viljum standa vörð um landið okkar og skila því í góðu standi til komandi kynslóða. Ekki skemmir fyrir að Íslandshótel sé 30 ára í ár og gaman að geta fagnað þeim áfanga með undirritun þessara samninga.“
Um þessar mundir eru einnig 10 ár síðan að Grand Hótel Reykjavík fékk vottun Norræna umhverfismerkisins Svaninn til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. “Græni lykillinn er því kærkomið framhald á þeirri vinnu sem hófst með Svaninum árið 2012. Það er mín trú að með vottun Græna lykilsins verði hótel keðjunnar enn vænlegri og eftirsóttari kostur fyrir gesti sem sækja okkur heim. Við megum vera ákaflega stolt af þeirri vinnu sem hér hefur farið fram í umhverfis- og samfélagsmálum á undanförnum áratug og eiga stjórnendur heiður skilið fyrir hugrekki og framsýni í þessum málum,“ bætti Guðlaugur Sæmundsson, innkaupastjóri, við að lokum.