Fyrsta sjálfbærnivottaða hótelkeðjan á Íslandi
Íslandshótel er stolt af því að vera fyrsta íslenska hótelkeðjan til að öðlast fulla Green Key vottun fyrir öll 17 hótel sín. Þessi virta, alþjóðlega viðurkennda vottun hefur stuðlað að sjálfbærum starfsháttum í yfir 60 löndum í meira en 25 ár. Hún markar tímamót bæði fyrir félagið og íslenska ferðaþjónustu.
Áfanganum var fagnað við fjölmenni á Fosshóteli Reykjavík, þar á meðal forystufólki úr íslenskri ferðaþjónustu og sjálfbærnigeiranum, auk þess sem fagnað var á hótelum okkar víðsvegar um landið. Vottunin staðfestir leiðandi stöðu Íslandshótela í sjálfbærni og skuldbindingu félagsins til að setja ný viðmið innan greinarinnar.
Að setja ný viðmið í sjálfbærni
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela, staðfesti skuldbindingu félagsins við sjálfbærni og lagði áherslu á að markmið félagsins hafi alltaf verið skýrt; að vera leiðandi í sjálfbærni og setja ný viðmið fyrir íslenska ferðaþjónustu. Hann tók fram að Green Key vottunin endurspegli þá miklu vinnu og metnað sem starfsfólk Íslandshótela hefur lagt á sig, og hann vonast til að hún verði hvatning fyrir önnur fyrirtæki.
Ástríða fyrir betri framtíð
Erna Dís Ingólfsdóttir, Framkvæmdastjóri Mannauðs og Sjálfbærni, benti á mikilvægi teymisvinnu við að ná þessum áfanga. Hún undirstrikaði þá umfangsmiklu vinnu, ástríðu og skuldbindingu sem starfsfólk Íslandshótela hefur lagt af mörkum, og sagði að árangurinn væri sannarlega þeirra. Sjálfbærni hafi ávallt verið kjarninn í framtíðarsýn eigenda, stjórnar og stjórnenda, sem hafi hvatt teymið til að gera enn betur og fara lengra.
Hvatning til breytinga í greininni
Katrín Bryndísardóttir, viðskiptastjóri hjá Vottunarstofunni Tún, lýsti því yfir að samstarfið við Íslandshótel hefði verið afar ánægjulegt. Hún bætti við að fagmennskan, þekkingin og sú skuldbinding sem starfsfólkið hefur sýnt þessu mikilvæga verkefni hefði verið mikil og hvatning til sjálfbærrar framtíðar í þessari grein hér á landi.
Leiðandi í alþjóðlegum verkefnum
Erna Dís deildi einnig spennandi fréttum af áframhaldandi verkefnum félagsins á sviði sjálfbærni. Auk Green Key vottunarinnar er Íslandshótel fyrsta íslenska ferðaþjónustufyrirtækið til að undirrita Glasgow Declaration on Climate Action in Tourism. Félagið er einnig á lokastigi þess að fá Regnbogavottun frá Samtökunum 78, og hefur verið valið til þátttöku í alþjóðlegu verkefni með UNWTO (Samtökum Sameinuðu þjóðanna um ferðaþjónustu) og Oxford SDG (Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna) Impact Lab til að þróa fyrsta alþjóðlega UFS rammann (umhverfis-, félags- og stjórnunarrammann) fyrir ferðaþjónustu.